Akta
SjóðirAf hverju Akta?StarfsfólkUm AktaFréttirUpplýsingarEnglish

Fréttir

6. janúar 2021

Eignadreifing fyrir nýja tíma

Hraði er það orð sem lýsir síðastliðnu ári hvað best þegar kemur að atburðarrásinni á fjármálamörkuðum og í efnahagsmálum á heimsvísu. Í kjölfar fyrstu Covid-19 sóttvarnaraðgerðanna í Kína seint í janúar tók sem dæmi aðeins um sex vikur fyrir heimsbúskapinn að stöðvast vegna hertra takmarkana á daglegu lífi fólks. Efnahagssamdrátturinn var gífurlegur og nam um 20% þegar verst lét í byrjun apríl. Hlutabréfamarkaðir hrundu og í Bandaríkjunum hafði markaðurinn aldrei áður lækkað eins snögglega um 30%. Fordæmalaus og skjót viðbrögð seðlabanka og stjórnvalda við þeim skaða sem blasti við náðu hinsvegar að sefa áhyggjur fjárfesta og sú hraða viðspyrna sem tók af stað innan fjármálamarkaða í lok mars reyndist söguleg. Alls hækkaði heimsvísitala hlutabréfa um 15% á síðasta ári og hlutabréfamarkaðurinn hérlendis fór upp um 20%. Sneggsta þróunarferli bóluefnis fyrr og síðar með tilkomu virkra bóluefna gegn Covid-19 við árslok var síðan fullkominn tákngervingur fyrir hraðann sem einkenndi árið 2020.

‍

Afleiðingarnar af þessu einstaka ári eru hinsvegar margþættar. Fyrst má nefna að vextir hafa aldrei verið lægri vegna skarpra vaxtalækkana seðlabanka. Ársvextir óbundinna sparireikninga á Íslandi eru þannig á bilinu 0,05% til 1% í dag. Verði 3% verðbólguspá greiningaraðila að veruleika munu sparifjáreigendur því að öðru óbreyttu horfa upp á verulega rýrnun fjármuna sinna á þessu ári. Eftir kröftugar verðhækkanir undanfarna ársfjórðunga er verðlagning hlutabréfamarkaða víðs vegar um heiminn einnig orðinn rausnarleg á hefðbundna mælikvarða. Vanda verður valið nú sem aldrei fyrr.

‍

Í stuttu máli, þessar aðstæður kalla á nýja nálgun af hálfu sparifjáreiganda í leit að ávöxtun fjármuna sinna á þessu ári. Nauðsynlegt verður að taka vel ígrunduð skref úr innlánum inn á fjármálamarkaði til þess að auka vænta ávöxtun í lágvaxtaheimi. Tvenns konar breytingar ættu þannig að koma til skoðunar. Annars vegar ætti að stefna að vægi skuldabréfa og hlutabréfa sem hentar hverjum og einum og hins vegar ætti að stefna að auknu vægi erlendra markaða í eignasöfnum. Blandað, alþjóðlegt safn er þannig ein nálgun að eignadreifingu fyrir nýja tíma.  

‍

Rétt er þá að spyrja hvaða þættir gætu litað árangur slíks safns á komandi misserum. Í fyrsta lagi er það framvinda bólusetninga gegn Covid-19. Spurningin um hvaða lönd og atvinnugreinar gætu skarað fram úr á mörkuðum ræðst að einhverju leyti af því hversu hratt bólusetningar munu vinna á farsóttinni. Í öðru lagi er það mikilvægi þess að ná fram landfræðilegri dreifingu innan bæði hlutabréfa og skuldabréfa. Hægt er að margfalda flóruna af mögulegum fjárfestingarkostum með því að sækja inn á erlenda skuldabréfamarkaði sem dæmi. Í þriðja lagi er það þáttur virkrar stýringar, en í núverandi umhverfi er það lykilatriði að vera á réttum stöðum innan markaðarins fremur en að fylgja hlutlausri fjárfestingarstefnu sem er alfarið bundin við almennar vísitölur.

‍

Síðastnefndi þátturinn er mikilvægur þegar kemur að erlendum hlutabréfamörkuðum í dag. Þannig geta einstakar atvinnugreinar eða landsvæði skilað ágætri ávöxtun yfir tímabil þar sem almennar hlutabréfavísitölur hafa fært fjárfestum litla sem enga ávöxtun. Svo dæmi sé tekið af bandaríska hlutabréfamarkaðnum þá hefur að jafnaði verið um 40% munur milli þeirra atvinnugreina sem skiluðu hæstu og lægstu ávöxtuninni yfir stök ár. Virk stýring keppir að því að grípa þessi tækifæri sem oft myndast innan mismunandi hluta markaðarins. Verkefni virkrar stýringar er auk þess að halda opnum hug á hverjum degi til að geta brugðist tímanlega við aðstæðum sem oft breytast mun hraðar en nokkurn órar fyrir líkt og síðasta ár sýndi skilmerkilega.

‍

Litið fram á við, þá ætti viðspyrna heimshagkerfisins að eflast á þessu ári í kjölfar bólusetninga gegn Covid-19 og vonir eru um að daglegt líf færist í fyrra horf með haustinu. Hins vegar er hætt við því að lágvaxtaumhverfið reynist þrálátt. Við ársbyrjun gæti því reynst skynsamlegt að taka varfærin og vel ígrunduð skref í átt að meiri eignadreifingu til að auka vænta ávöxtun til lengri tíma.

 

‍Grein eftir Birgi Haraldsson og Davíð Stefánsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 6. janúar 2021.

‍

https://www.frettabladid.is/markadurinn/eignadreifing-fyrir-nyja-tima/‍


‍

‍

> Nánar

9. desember 2020

Ásókn í fyrirtækjabréf og vaxtaálag minnkar

Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til Akta um álit á nýlegri þróun á markaði fyrirtækjaskuldabréfa hérlendis. Álag á fyrirtækjaskuldabréfum hefur lækkað töluvert í haust og er sú hækkun sem átti sér stað í kjölfar COVID-19 að miklu leyti gengin tilbaka. Rætt var við Birgi Haraldsson, sjóðstjóra á sviði skuldabréfa- og blandaðra sjóða hjá Akta, um þessa þróun og hvernig hún er sambærileg við það sem hefur verið að gerast á erlendum skuldabréfamörkuðum síðustu mánuði.

https://www.frettabladid.is/markadurinn/asokn-i-fyrirtaekjabref-og-vaxtaalag-minnkar/

‍

> Nánar

9. desember 2020

Akta sjóðir fær starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða

Á dögunum fengu Akta sjóðir hf. starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða skv. lögum nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

Í leyfinu felst að félaginu er heimilt að reka sérhæfða sjóði skv. 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

Félagið hefur einnig starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Akta rekur nú 10 sjóði sem falla undir gildissvið laganna. Það eru fjárfestingarsjóðirnir Akta Alviðra, Akta Atlas, Akta Stokkur, Akta VaxtaTækifæri og Akta VaxtaVeröld. Þá rekur félagið einnig sérhæfða sjóði sem eingöngu eru markaðssettir fagfjárfestum. Til viðbótar er verðbréfasjóðurinn Akta Ríki.

Allar nánari upplýsingar um sjóði í stýringu hjá AKTA má nálgast á heimasíðu félagsins www.akta.is/sjodir, á netfanginu sjodir@akta.is eða í síma 585-6800.

‍

> Nánar

24. nóvember 2020

Akta Alviðra fagnar þriggja ára afmæli

Nú á dögunum fagnaði Akta Alviðra þriggja ára afmæli. Alviðra er blandaður sjóður í rekstri Akta sjóða hf. sem fjárfestir á hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum á Íslandi sem og erlendis. Sjóðstjórn er í höndum Davíðs Stefánssonar og Birgis Haraldssonar.

Við teljum að árangur sjóðsins byggist á viðamikilli starfsreynslu sjóðstjóra á bæði innlendum og erlendum fjármálamörkuðum ásamt þeim mikla hreyfanleika sem einkennir stýringu sjóðsins. Virk stýring, byggð á ítarlegu mati á ávöxtunarmöguleikum og áhættu á hverjum tíma, er nauðsynleg nú sem fyrr í nýju lágvaxtaumhverfi til að skila umframávöxtun.  

Hægt er að kynna sér ávöxtun sjóðsins á heimasíðu Akta og gera samanburð á www.keldan.is.

‍

> Nánar

12. nóvember 2020

Líkur á að vextir á íbúðalánum hækki

Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til AKTA um álit á núverandi stöðu á íslenskum skuldabréfamarkaði. Hefur ávöxtunarkrafan á langtíma ríkisskuldabréfum hækkað skarpt síðastliðna þrjá mánuði og fjármögnunarkjör bankanna versnað að sama skapi. Rætt var við Birgi Haraldsson, sjóðstjóra á sviði skuldabréfa- og blandaðra sjóða hjá AKTA, um hvernig íhlutun Seðlabankans á skuldabréfamarkaði hefur reynst bæði magnlaus og andlaus frá því að aðgerðin var tilkynnt í lok mars. Því verði áhugavert að fylgjast með fundi peningastefnunefndar í næstu viku og heyra sýn Seðlabankans á þessa framkvæmd og hvort hann telji sig hafa náð markmiðum sínum með henni eða ekki.

https://www.frettabladid.is/markadurinn/likur-ad-vextir-ibudalanum-haekki/

‍

> Nánar

4. nóvember 2020

Vægi erlendra fjárfesta í ríkisbréfum sjaldan verið minna

Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til AKTA um álit á núverandi aðstæðum á íslenskum skuldabréfamarkaði. Hlutdeild erlendra fjárfesta í ríkisskuldabréfum er nú að öllum líkindum í sögulegu lágmarki eða undir 10%. Það er nærri helmingi minni hlutdeild en má finna að jafnaði á innlendum skuldabréfamörkuðum nýmarkaðsríkja. Rætt var við Birgi Haraldsson, sjóðstjóra á sviði skuldabréfa- og blandaðra sjóða hjá AKTA, um horfur á því að fjármagnsinnflæði gæti aukist á ný með tilkomu nýrra erlendra fjárfesta að skuldabréfamarkaðnum.

https://www.frettabladid.is/markadurinn/vaegi-erlendra-fjarfesta-i-rikisbrefum-sjaldan-verid-minna/

‍

> Nánar

29. október 2020

Akta VaxtaTækifæri fagnar þriggja ára afmæli

Síðastliðinn föstudag fagnaði Akta VaxtaTækifæri þriggja ára afmæli. VaxtaTækifæri er innlendur skuldabréfasjóður í rekstri Akta sjóða hf. sem hefur það að markmiði að velja bestu tækifærin á skuldabréfamarkaði á hverjum tíma að mati sjóðstjóra.

Við teljum að árangur sjóðsins byggist á þeim mikla hreyfanleika sem einkennir stýringu sjóðsins. Virk stýring, byggð á ítarlegu mati á ávöxtunarmöguleikum og áhættu á hverjum tíma, er nauðsynleg nú sem fyrr í nýju lágvaxtaumhverfi til að skila umframávöxtun.  

Hægt er að kynna sér ávöxtun sjóðsins á heimasíðu Akta og gera samanburð á www.keldan.is.

‍

> Nánar

28. október 2020

Þáttaskil framundan?

Tveir veigamiklir þættir gætu litað árangur blandaðra eignasafna með hátt vægi erlendra eigna á næstu misserum. Í fyrsta lagi er það framvindan á þróun bóluefnis gegn COVID-19, en líklega dregur til tíðinda á þeim vettvangi á næstu vikum. Í öðru lagi er það framvindan á gengi krónunnar, en teikn eru á lofti um að styrking á krónunni sé fremur líklegri en veiking þegar horft er inn í næsta ár.

Tímalínan sem markar mikilvæga áfanga í þróun bóluefnis við COVID-19 er orðin stutt og má búast við niðurstöðum úr rannsóknum lyfjafyrirtækjanna Pfizer og Moderna innan skamms. Þetta getur farið á hvorn veginn sem er, en ef niðurstöðurnar lofa góðu er talið líklegt að bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið gefi út neyðarheimild til notkunar þessara bóluefna fyrir árslok. Slíkt myndi hafa mikla þýðingu fyrir heimsbúskapinn þar sem stærstu hagkerfi heims eru enn langt frá fullum afköstum vegna sóttvarnaaðgerða. Íslensk ferðaþjónusta ætti þá einnig von um viðspyrnu á síðari hluta næsta árs ef allt gengi að óskum.

Auk þessara hagvaxtaráhrifa er líklegt að ákveðin umskipti eigi sér stað á erlendum hlutabréfamörkuðum þar sem margvíslegar iðnaðar- og þjónustugreinar sem hafa staðið öðrum að baki á þessu ári myndu sækja í sig veðrið ef það tekst að þróa áhrifaríkt og öruggt bóluefni. Sem dæmi má nefna að hlutabréf fyrirtækja í hótelrekstri, banka, bjórframleiðenda og olíufyrirtækja eru sum hver nálægt sögulega lágum gildum og hlutabréfavísitölur ákveðinna nýmarkaðsríkja eru enn niður um tugprósent á árinu. Í stuttu máli, þá er líklegt að markaðsforystan komi úr nýrri átt á næstu misserum ef bóluefnaþróanir reynast farsælar. Blönduð eignasöfn verða að horfa til þessa þegar kemur að erlendri hlutabréfaeign þeirra.

Þátturinn sem snýr að krónunni er síðan tvíþættur. Annars vegar hefur Seðlabankinn spyrnt kröftuglega á móti frekari gengisveikingu og hins vegar þarf að líta til aðstæðna á innlendum skuldabréfamarkaði út frá alþjóðlegum vinkli ef bóluefni finnst á næstu mánuðum. Óþarft er að efast um stefnu Seðlabankans um að vinna gegn frekari gengisveikingu, en ólíkt þeirri magnlausu íhlutun sem hefur átt sér stað á skuldabréfamarkaði þá hafa inngripin á gjaldeyrismarkaði verið bæði í orði og á borði. Þessi gjaldeyrisstefna ásamt möguleikanum á áhrifaríku bóluefni sem endurræsir íslenska ferðaþjónustu gera sviðsmyndir krónunnar þannig ósamhverfar og hneigðar til styrkingar þegar litið er til næsta árs.

Samhliða þessu hefur nýlegur söluþrýstingur á innlendum skuldabréfamarkaði leitt til þess að verðlagning á langtíma ríkisskuldabréfum er á nýjan leik sambærileg við nýmarkaðsríki með svipað lánshæfismat. Hlutdeild erlendra fjárfesta hefur þá minnkað enn frekar og er líklegast í sögulegu lágmarki eða undir 10% sem er nærri helmingi minni hlutdeild en má finna að jafnaði á innlendum skuldabréfamörkuðum nýmarkaðsríkja. Séð frá sjónarhóli erlendra fjárfesta ætti íslenskur skuldabréfamarkaður þannig að vera aðlaðandi við núverandi aðstæður: möguleg gengisstyrking í kjölfar áhrifaríks bóluefnis, samkeppnishæf verðlagning, lítil þátttaka erlendra fjárfesta og auk þess geta skuldabréfakaup Seðlabankans einungis aukist héðan í frá. Óverðtryggð skuldabréf væru líklegust til að njóta meðbyrs af þessu.

Fjármagnsflæði til landsins gæti því vel aukist á komandi ársfjórðungum í gegnum skuldabréfamarkaðinn ásamt því að innleiðing Íslands inn í MSCI hlutabréfavísitöluna á næsta ári ætti sömuleiðis að auka við innflæðið. Þetta getur þannig magnað upp þá krafta sem nú þegar benda til sterkari krónu. Blönduð eignasöfn með hátt vægi erlendra eigna verða að horfa til þessa og er virk stýring á gjaldeyrisáhættu því að verða enn mikilvægara atriði fyrir slík eignasöfn.

Þáttaskil gætu þannig verið fram undan og af þessum sökum er mikilvægt að fylgjast vel með framvindu bóluefnaþróunar og halda til haga þeim lykilþáttum sem gætu litað árangur blandaðra eignasafna í kjölfarið á næstu ársfjórðungum.

‍Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 28. október 2020.‍

https://www.frettabladid.is/skodun/thattaskil-framundan/

‍


> Nánar

9. október 2020

Akta Atlas - nýr blandaður fjárfestingarsjóður sem fjárfestir á innlendum og erlendum mörkuðum

Akta hefur stofnað blandaða fjárfestingarsjóðinn Akta Atlas sem hóf starfsemi þann 2. september síðastliðinn. Akta Atlas fjárfestir m.a. í innlendum og erlendum hlutabréfum, skuldabréfum, afleiðum og beitir virkri gjaldeyrisstýringu í fjárfestingarstefnu sinni.

Við stýringu sjóðsins er lögð rík áhersla á fjárfestingar í skráðum og seljanlegum eignum. Stýring sjóðsins byggir á þremur lykilþáttum: (a) fjárfestingar í stökum hlutabréfum með umtalsverða vaxtarmöguleika, (b) tækifærisdrifnar fjárfestingar (bæði með gnótt- eða skortstöðu) þvert á alla eignaflokka (s.s. ríkisskuldabréf, áhættumeiri skuldabréf, hlutabréfavísitölur, góðmálmar (óbeint) og fleira) og (c) gjaldeyrisstýring.

Markmið sjóðsins er að ná umframávöxtun með stýringu á ofangreindum þáttum. Sjóðurinn hefur heimild til skortsölu og varna gegn lækkunum á mörkuðum í gegnum afleiðuheimildir. Akta Atlas hefur víðtækar fjárfestingarheimildir og er vægi erlendra eigna almennt um eða yfir 80%. Áhættuþol sjóðsins er hátt og sveiflur kunna því að verða umtalsverðar. Sjóðurinn hentar því fjárfestum sem vilja fjárfesta til langs tíma og þola miklar sveiflur.

Fjárfestingateymi sjóðsins skipa Davíð Stefánsson, Fannar Jónsson og Birgir Haraldsson. Teymið býr yfir mikilli þekkingu og umfangsmikilli reynslu af stýringu hluta- og skuldabréfa, sjóðastýringu og innlendum og alþjóðlegum fjárfestingum.

Nánari upplýsingar um Akta Atlas má finna hér, en sjóðurinn er fjárfestingarsjóður og opinn bæði almennum og fagfjárfestum.

Nánari upplýsingar veita Örn Þorsteinsson (orn@akta.is) og Davíð Stefánsson (david@akta.is).

‍

> Nánar

16. september 2020

Lína í sandinn

Seðlabankinn sendi skýr skilaboð í síðustu viku um að gengisveiking íslensku krónunnar það sem af er ári væri orðin óhófleg. Fréttatilkynning bankans um að hann myndi hefja reglulega sölu á gjaldeyri í þessari viku bar öll þess merki en eitt af markmiðum aðgerðarinnar er að bæta verðmyndun á gjaldeyrismarkaði. Þá var fundargerð peningastefnunefndar fyrir ágúst einnig birt sama dag og reyndist niðurstaðan úr gjaldeyrisumræðum nefndarinnar vera að raungengi krónunnar væri komið undir jafnvægisgildi sitt. Seðlabankastjóri steig síðan fram degi síðar og lýsti því yfir að gengi krónunnar væri einfaldlega orðið mjög lágt og úr takti við grunnþætti íslenska hagkerfisins.      

Í ljósi tíðra inngripa Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði á þessu ári – bankinn hefur í dögum talið stigið þrisvar sinnum oftar inn á markaðinn í samanburði við 2019 og verið mjög virkur síðasta mánuðinn – má líta á aðgerðir hans í síðustu viku sem nokkurs konar útvíkkun á þeirri stefnu sem þegar hafði verið mörkuð. Engu að síður er ljóst að Seðlabankinn hefur nú ákveðið að draga línu í sandinn varðandi eigin þolmörk um frekari veikingu krónunnar. Samstillt og stigmagnandi inngrip í orði og á borði bera vott um það.

Þrjár spurningar vakna af þessu tilefni. Í fyrsta lagi má spyrja hvort gengið sé í raun og veru of lágt. Í öðru lagi hvað sé að valda auknu óþoli Seðlabankans gagnvart frekari gengisveikingu. Í þriðja lagi hver sé líkleg þróun krónunnar næstu ársfjórðunga.

Ein nálgun við mat á misgengi er að bera saman raungengið við langtímameðaltal og áætla þannig hvort frávikið bendi til sterkrar eða veikrar krónu. Með slíkri nálgun fæst að raungengið var í ágúst um 3% lægra en meðaltal síðasta aldarfjórðungs en það getur varla talist óhóflega veik króna í núverandi efnahagsástandi. Vissulega eru grunnstoðir hagkerfisins sterkari í dag heldur en oft áður en til samanburðar má nefna að raungengið var að jafnaði 15% til 30% lægra en fyrrnefnt meðaltalsgildi frá haustinu 2008 til ársloka 2013.

Óþol gagnvart frekari gengisveikingu verður því ekki skrifað á raungengið eitt og sér en þegar það er sett í samhengi við nýlega verðbólguþróun verður heildarmyndin skýrari. Verðbólguáhrifin af veikari krónu hafa þannig reynst þróttmeiri en gert var ráð fyrir og situr verðbólgan nú í 3,2% sem er þó nokkuð yfir 2,5% markmiði Seðlabankans. Verðbólguspá bankans til loka þessa árs var einnig færð upp um 0,6% prósentustig í ágúst á meðan sögulega lágir vextir eru að valda snörpum hækkunum á húsnæðisverði. Óþol Seðlabankans gagnvart frekari gengisveikingu er því birtingarmynd af áhyggjum hans um verðbólguþróunina.

Opinská orðræðuinngrip ásamt kerfisbundnum inngripum á gjaldeyrismarkaði til að leggjast gegn skammtíma- og langtímasveiflum sýna því að krónan er stýritækið sem Seðlabankinn hyggst beita til að kveða niður verðbólguþrýstinginn. Til að þessi stefna sé trúverðug þarf að fylgja henni eftir af krafti og koma í veg fyrir að gengið veikist frekar frá þeim gildum þar sem línan var dregin í sandinn. Ótímabærar vaxtahækkanir gætu annars þurft að líta dagsins ljós ef eftirfylgnin er af hálfum huga og verðbólgan reynist þrálát yfir markmiði. Seðlabankanum er hins vegar ekkert til fyrirstöðu við trúverðuga framkvæmd á þessari stefnu þar sem að tröllvaxinn gjaldeyrisforði bankans styður kröftuglega við hana.

Það bendir því allt til þess að veikingarfasa krónunnar sé að mestu lokið á þessari stundu og þegar litið er til næstu ársfjórðunga eru sviðsmyndirnar auk þess að mestu ósamhverfar og hneigðar til styrkingar. Vandamál hagkerfisins eru vel þekkt á þessari stundu en viðspyrnan gæti orðið öflug og þungri byrði þannig létt af krónunni ef þróun bóluefnis við COVID-19 kemst yfir marklínuna á komandi ári líkt og væntingar eru um.  

‍Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 16. september 2020.

‍https://www.frettabladid.is/skodun/lina-i-sandinn/

‍

‍

‍

> Nánar

10. júlí 2020

Akta VaxtaVeröld - nýr fjárfestingarsjóður sem fjárfestir í innlendum og erlendum skuldabréfum

Akta hefur stofnað skuldabréfasjóðinn Akta VaxtaVeröld sem hóf starfsemi þann 26. júní síðastliðinn. Akta VaxtaVeröld fjárfestir í innlendum og erlendum skuldabréfum og beitir virkri gjaldeyrisstýringu í fjárfestingarstefnu sinni.

Við stýringu sjóðsins er lögð rík áhersla á fjárfestingar í skráðum og seljanlegum eignum. Markmið sjóðsins er að ná umframávöxtun með stýringu á vægi áhættumeiri og tryggari skuldabréfa annars vegar og stýringu gjaldeyrisáhættu hins vegar. Akta VaxtaVeröld hefur víðtækar fjárfestingarheimildir og er vægi erlendra eigna almennt á bilinu 40-70%. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að binda allt að 100% af eignum sjóðsins í bandarískum ríkisskuldabréfum.

Fjárfestingateymi sjóðsins skipa Birgir Haraldsson, Davíð Stefánsson og Þórhallur Ásbjörnsson. Teymið býr yfir mikilli þekkingu og umfangsmikilli reynslu af skuldabréfamarkaði, sjóðastýringu og innlendum og alþjóðlegum fjárfestingum.

Nánari upplýsingar um Akta VaxtaVeröld má finna hér, en sjóðurinn er fjárfestingarsjóður og opinn bæði almennum og fagfjárfestum.

Nánari upplýsingar veita Örn Þorsteinsson (orn@akta.is) og Birgir Haraldsson (birgir@akta.is).

‍

> Nánar

7. júlí 2020

Viðtal við Rósu Kristinsdóttur í Viðskiptablaðinu

Viðskiptablaðið tók viðtal við Rósu Kristinsdóttur í byrjun júlí í kjölfar þess að Rósa tók nýverið við stöðu lögfræðings og regluvarðar Akta sjóða. Meðal annars var rætt um Akta VaxtaVeröld, nýjan skuldabréfasjóð í stýringu Akta sem fjárfestir í dreifðu safni af íslenskum og erlendum skuldabréfum og beitir virkri stýringu á gjaldeyrisáhættu sjóðsins.

https://www.vb.is/frettir/sjosund-thrithraut-og-perusk-matargerd/162791/

‍

‍

> Nánar

24. júní 2020

Gríðarmikið fé gæti leitað ávöxtunar

Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til Akta um álit á breyttum aðstæðum á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar skarpra stýrivaxtalækkana Seðlabanka Íslands á þessu ári. Rætt var við Birgi Haraldsson, sérfræðing á sviði blandaðra sjóða hjá Akta, um þá endurskipulagningu eignasafna sem mun óhjákvæmilega eiga sér stað á komandi misserum. Sem stendur er meirihluti fjáreignar íslenskra heimila bundin í vaxtatengdum eignum líkt og innlánum sem skila nú neikvæðri raunávöxtun. Nýja eignasafnið mun þannig að öllum líkindum verða bæði blandaðra og alþjóðlegra þegar fram líða stundir, en telja má að þörf sé á aukinni áhættutöku til að auka vænta ávöxtun.

https://www.frettabladid.is/markadurinn/gridarmikid-fe-gaeti-leitad-avoxtunar/

> Nánar

3. júní 2020

Nýja eignasafnið

Erfiður vetur er að baki þar sem kórónaveiran setti mark sitt á bæði fjármálamarkaði og efnahagslífið hérlendis og erlendis. Skaðinn sést í hagvaxtarspám fyrir þetta ár en Seðlabanki Íslands væntir -8,0% samdráttar og erlendir greiningaraðilar búast við -3,0% samdrætti í heimsbúskapnum. Til að setja þessar tölur í samhengi má hafa í huga að ef spárnar raungerast, verður um að ræða mesta árlega samdrátt í heila öld á Íslandi og sömuleiðis verstu útreið heimshagkerfisins síðan í kreppunni miklu fyrir 90 árum. Stóraukin ríkisútgjöld hafa óhjákvæmilega fylgt þessum erfiðu efnahagsaðstæðum og kröftugar aðgerðir seðlabanka hafa leitt til sögulega lágra vaxta.

Skammtímaáhrif kórónaveirunnar á efnahagslífið hafa þannig verið gífurleg og líklegt er að áhrifin verði einnig töluverð þegar litið er til meðallangs- og langs tíma. Til að mynda gætu skattar þurft að hækka til að vinda ofan af auknum ríkishalla um allan heim. Viðskiptaumhverfið er einnig líklegt til að breytast með frekari eflingu netverslunar, og fjölbreyttara starfsfyrirkomulagi sem kann að breyta eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði, ásamt því að framleiðslukeðjur heimshagkerfisins gætu verið endurskipulagðar. Þá eru ótalin þau samfélagslegu og pólitísku áhrif sem vænta má ef sögulega hátt atvinnuleysi reynist þrálátt.

Enduropnun hagkerfa hefur þó átt sér stað hægt og rólega síðan í byrjun apríl og hefur í sameiningu með aðgerðum ríkisstjórna og seðlabanka aukið vonir um efnahagslega viðspyrnu. Fjármálamarkaðir, þá sérstaklega erlendis, hafa tekið ágætlega við sér eftir skarpa dýfu fyrr á árinu, jafnvel þótt langtímasviðsmyndir efnahagslífsins séu enn háðar mikilli óvissu. Ákveðnir hlutar markaðarins hafa jafnvel náð fyrri gildum og gott betur.

Skammtímaáhrif kórónaveirunnar á fjármálamarkaði kunna þannig að virðast léttvæg við fyrstu sýn, en áhrifin fyrir íslenska sparifjáreigendur eru líkleg til að verða töluverð til lengri tíma litið. Rétt eins og með framleiðslukeðjur heimshagkerfisins verður sennilega mikil þörf fyrir endurskipulagningu íslenskra eignasafna.

Hvers vegna?

Þegar litið er á aðrar fjáreignir en lífeyriseign íslenskra heimila, má áætla að um 60% af þeim – um 1,500 milljarðar króna – sé bundinn í innlánum, skuldabréfum og í hlutdeildarskírteinum skuldabréfa- og peningamarkaðssjóða. Þessar vaxtatengdu fjáreignir standa nú frammi fyrir sögulega lágum vaxtagrunni, en stýrivextir Seðlabankans hafa verið lækkaðir kröftuglega á þessu ári og eru nú 1,0%.

Þessi lági vaxtagrunnur helst líklegast óbreyttur til lengri tíma, enda mun taka tíma að bæta upp skaðann sem kórónaveiran hefur valdið á þessu ári. Þannig spáir Seðlabankinn til að mynda talsverðum framleiðsluslaka næstu árin, sem gefur litlar forsendur til vaxtahækkana. Sömu sögu er að segja af helstu seðlabönkumheims, en stýrivöxtum er spáð óbreyttum næstu þrjú árin beggja megin Atlantshafsins.

Í stuttu máli þá munu innlán og íslensk ríkisskuldabréf eiga erfitt með að skila ávöxtun umfram verðbólgu á komandi misserum og raunávöxtun því líkleg tilað vera lítil sem engin, eða neikvæð fyrir meginþorra sparnaðar íslenskraheimila.

Hvað er til ráða?

Óhjákvæmilegt er að færsla eigi sér stað úr þessum áhættuminni eignum og yfir í áhættumeiri eignir með tíð og tíma. Endurskipulagning eignasafna felur því í sér að taka varfærin og vel ígrunduð skref lengra út á áhætturófið, til að auka væntaávöxtun. Slík skref geta falið í sér fjárfestingar í skuldabréfum fyrirtækja og banka hérlendis, sem og í félögum á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Auk þessa er hægt að fjárfesta á fjármálamörkuðum erlendis, bæði í skuldabréfum og hlutabréfum. Þannig má draga úr næmni fjáreigna við gang íslenska hagkerfisins og sömuleiðis auka flóruna af mögulegum fjárfestingarkostum margfalt.

Það er þannig ljóst að miklar langtímabreytingar eru að eiga sér stað á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar versta efnahagsáfalls sem hefur mælst hérlendis í heila öld. Lágvaxtaumhverfið verður þrálátt og nýja eignasafnið mun því að öllum líkindum þurfa að vera bæði alþjóðlegra og blandaðra en það er ídag.‍

Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 3 júní. 2020.

https://www.frettabladid.is/skodun/nyja-eignasafnid/

‍

> Nánar

1. maí 2020

Rósa Kristinsdóttir gengur til liðs við Akta

Rósa Kristinsdóttir hefur verið ráðin til Akta sjóða og mun starfa sem lögfræðingur og regluvörður félagsins. Hún hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdarstjóri Framtíðarinnar lánasjóðs, sérfræðingur á bankasviði Kviku banka og fulltrúi hjá LOGOS lögmannsþjónustu. Rósa hefur lokið meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Rósa Kristinsdóttir
> Nánar

25. mars 2020

Öll vopn nýtt gegn veirunni

Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, leitaði til Akta um álit á aðgerðum seðlabanka víða um heim til að sporna gegn yfirvofandi efnahagserfiðleikum í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar. Rætt var við Birgi Haraldsson, sérfræðing á sviði blandaðra sjóða hjá Akta, um líkur þess að stýrivextir Seðlabanka Íslands yrðu lækkaðir enn frekar og hvernig gengisveiking gæti auk þess örvað hagkerfið og útflutningsgreinarnar.

https://www.frettabladid.is/markadurinn/oll-vopn-nytt-gegn-veirunni/

> Nánar

12. mars 2020

Umfjöllun um aðgerðir Seðlabanka Íslands

Í kjölfar neyðarlækkunar á stýrivöxtum á Íslandi þann 11. mars um hálft prósentustig og lækkun meðaltalsbindiskyldu bankanna úr einu prósenti í núll prósent var leitað til Akta um álit á þessum aðgerðum og hver framvindan á peningastefnu Seðlabankans gæti orðið á þessu ári. Birgir Haraldsson, sérfræðingur á sviði blandaðra sjóða hjá Akta, ræddi við viðskiptarit Fréttablaðsins, Markaðinn, um líkur á því að frekari vaxtalækkanir myndu líta dagsins ljós og hvernig allt væri opið varðandi næstu skref Seðlabankans til þess að draga úr því þunga efnahagshöggi sem kórónaveiran myndi óhjákvæmilega valda.

‍https://www.frettabladid.is/markadurinn/bankarnir-endurskodi-ardgreidsluaform/

‍https://www.frettabladid.is/markadurinn/veruleg-laekkun-gaeti-komid-til-greina/

> Nánar

11. mars 2020

Gerbreyttar efnahagsaðstæður

Áhættufælni hefur rokið upp á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum síðustu vikur í kjölfar hraðrar útbreiðslu kórónaveirunnar. Heimshlutabréfavísitalan hefur lækkað skarpt, olíuverð hrunið og ávöxtunarkrafan á bandarísk ríkisskuldabréf hefur hrapað niður á áður óþekktar slóðir. Seðlabankar og ríkisstjórnir hamast nú við í orði og verki að sporna gegn versnandi fjármálalegum skilyrðum og draga úr því þunga efnahagshöggi sem er orðið óhjákvæmilegt af sökum veirunnar.

Til að gera sér grein fyrir skalanum á þessu höggi er vert að hafa tvennt í huga. Fyrir það fyrsta þá hefur Alþjóða efnahags- ogframfarastofnunin (OECD) fært heimshagvaxtarspá sína í 1,5% úr 2,9% fyrir 2020 ef kórónaveiran breiðist frekar út og í öðru lagi þá lækkaði seðlabanki Bandaríkjanna stýrivexti um 0,5 prósentur á neyðarfundi í síðustu viku. Horfur fyrir heimsbúskapinn hafa því ekki verið verri síðan 2009 og bandaríski seðlabankinn hefur að sama skapi ekki haldið neyðarfund síðan í október 2008. Markaðsaðilar búast einnig við frekari vaxtalækkunum upp á 0,75 prósentur frá seðlabanka Bandaríkjanna í næstu viku.

Ytri efnahagsleg skilyrði Íslands hafa því gjörbreyst á skömmum tíma og magna nú upp þær veiku horfur sem Seðlabankinn setti fram í efnahagsspá sinni í byrjun febrúar. Þótt áhrif kórónaveirunnar gætu reynst tímabundin er ljóst að hagvaxtarhorfur hafa versnað verulega. Íslensk ferðaþjónusta mun finna fyrir þessum versnandi ytri skilyrðum en allt bendir til hríðminnkandi ferðabókana um allan heim þar sem heimsvísitala greinarinnar er nú í lægstu gildum sem hafa mælst síðan í byrjun árs 2011. Vandinn hérlendis er að ferðaþjónustan vegur þungt í þjóðarbúskapnum og vel umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar en samkvæmt Alþjóðaferðamálaráðinu vegur greinin að fullu (bein og óbein áhrif) um 32,5% af vergri landsframleiðslu en einungis um 9,0% á Norðurlöndunum.

Auk þessara ytri áhrifa má ætla að fjölgun innanlandssmita á kórónaveirunni muni draga úr einkaneyslu og valda skörpum lækkunum á væntingum íslenskra neytenda og fyrirtækja. Vert er að minnast á að neytendur hérlendis höfðu ekki verið svartsýnni í sex ár í febrúar. Fyrirtæki hafa sömuleiðis sýnt þverrandi áhuga á að bæta við sig starfsfólki að undanförnu og líklegt er að sú þróun haldi áfram inn í sumarið.

Samstilltur skellur blasir því við þar sem að ytra og innra byrði hagkerfisins virðast á leið í tímabundið frost og ekki er hægt að útiloka langvarandi áhrif á efnahagslífið. Gera má ráð fyrir að framleiðsluslakinn aukist verulega næstu misseri.

Óháð aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr væntum efnahagserfiðleikum þarf einnig að nýta hefðbundin stýritæki Seðlabankans. Auðveldara mun reynast að vinda ofan af kröftugum og fyrirbyggjandi vaxtalækkunum ef þær reynast of skarpar þegar fram í sækir heldur en að missa frá sér hraðbreytanlegar aðstæður vegna ofurvarkárni. Ekki má heldur útiloka að hlutlausir raunvextir séu verulega lægri en nú er áætlað og hærra óvissustig gæti verið að þrýsta þeim enn neðar.

Auk þess er töluvert svigrúm fyrir veikari krónu að örva fjármálaleg skilyrði án þess að valda óvelkomnu verðbólguskoti vegna traustrar kjölfestu verðbólguvæntinga, hríðlækkandi olíuverðs og þess mikla framleiðsluslaka sem nú er að myndast. Tempruð lækkun á nafngenginu er sá flötur miðlunarferlis peningastefnunnar sem líklegast mætir minnsta viðnáminuum þessar mundir og má hafa í huga að raungengið er enn um 8,5 prósentustigum yfir meðaltali síðasta aldarfjórðungs og hefur staðið óbreytt síðan í lok 2018.

Efnahagslegar aðstæður innanlands og erlendis eru þannig að versna hratt og þörf er á frekari aðgerðum til að vinna gegn væntu höggi á útflutningsgreinarnar og innlenda eftirspurn. Þessi samstillti skellur reynist síðan vonandi tímabundinn. Ef svo er þá yrði hagkerfið á ágætis stað síðar á árinu með vind í seglin frá lágu olíuverði og bættum fjármálalegum skilyrðum ef rýmið til vaxtalækkana verður nýtt af krafti.

Grein eftir Birgi Haraldsson sem birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu þann 11. mars 2020.

‍

> Nánar

2. janúar 2020

Birgir Haraldsson ráðinn til Akta

Birgir Haraldsson hefur verið ráðinn til Akta og mun hann starfa sem sérfræðingur á sviði blandaðra sjóða hjá félaginu. Birgir hefur yfir 10 ára starfsreynslu á íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum. Hann starfaði áður í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance. Á árunum 2010-2019 starfaði Birgir sem alþjóðasérfræðingur í New York og Genf í Sviss. Þar starfaði hann fyrir vogunarsjóðina Caxton Associates og Harness Investment Group, fjárfestingarbankann Jefferies Financial Group og greiningarfyrirtækið Nightberg. Birgir er með M.A. gráðu í hagfræði frá New York University og B.Sc gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Birgir Haraldsson
> Nánar

Hugsa stórt.
Akta strax.

585 6800
sjodir@akta.is

Akta sjóðir hf.
Borgartún 25, 8 hæð
105 Reykjavík

Kt: 430713-0940
Nafnlaus ábending

Þessi vefsíða notar vafrakökur (e. Cookies) til að tryggja bestu mögulegu upplifun notenda. Með því að halda áfram samþykkir þú notkun vafrakaka.

Í LAGI