Akta er sjálfstætt starfandi sjóðastýringarfyrirtæki með fjölbreytt úrval sjóða sem ávaxta fjármuni einstaklinga, fyrirtækja og fagfjárfesta. Akta er í meirihlutaeigu starfsfólks og var stofnað árið 2013. Hjá Akta starfa sérfræðingar í fremstu röð með mikla reynslu af innlendum og erlendum fjármálamörkuðum auk fjölbreyttrar þekkingar á stýringu verðbréfa-, fjárfestingar- og sérhæfðra sjóða. Virk stýring er í forgrunni í öllum sjóðum Akta og standa sjóðstjórar þannig vaktina fyrir sjóðsfélaga öllum stundum, bæði í vörn og sókn.
Við kaup í sjóðum Akta eignast sjóðsfélagar hlutdeildarskírteini í viðkomandi sjóðum. Hlutdeildarskírteinin veita sjóðsfélögum ákveðna hlutdeild í eignasafni sjóðanna og þannig hlutdeild í þeim árangri sem næst við ávöxtun sjóðanna. Vert er að benda á að ávöxtun sjóðanna getur einnig reynst neikvæð. Þær eignir sem eru innan hvers sjóðs eru ávallt í 100% eigu sjóðsfélaga (hlutdeildarskírteinishafa). Eignir sjóðanna eru varslaðar innan Kviku banka sem er vörsluaðili Akta og sér Kvika um að reikna út daglegt gengi sjóðanna. Öll gengi sjóða og ávöxtunartölur sem eru birtar m.a. á heimasíðu Akta sýna ávöxtun sjóðanna eftir greiðslu allra þóknana utan gengismunar (gengismunur er felldur niður þegar keypt er í sjóðunum í gegnum Akta) og afgreiðslugjalds vörsluaðila (viðskiptabankinn þar sem sjóðsfélagi ákveður að varsla hlutadeildarskírteinin).
Fjölbreytt sjóðaúrval Akta hentar fjárfestum af öllum stærðum og gerðum með mismunandi ávöxtunar- og áhættuvilja. Mikilvægt er að velja sjóð sem samræmist bæði þinni afstöðu og þoli til áhættu og sveiflna í daglegu gengi sjóðanna auk þess tímaramma sem horft er til við upphaf fjárfestingarinnar. Því minna áhættuþol og því styttri tímarammi sem er áætlaður fyrir fjárfestinguna því minni áhættu væri skynsamlegra að taka og öfugt. Hægt er að sjá yfirlit yfir áhættustig sjóðanna á sjóðasíðu Akta. Þetta yfirlit raðar sjóðunum upp eftir mismunandi áhættustigi þeirra sem er reiknað út frá sögulegum sveiflum í gengi sjóðanna (raunverulegum eða áætluðum ef saga sjóðsins er stutt) en skalinn sem er notaður nær frá 1 (minnsta áhættan / sveiflur) og upp í 7 (mesta áhættan / sveiflur).
Sjóðir Akta eru flokkaðir eftir því hversu miklar sveiflur (raunverulegar eða áætlaðar ef saga sjóðsins er stutt) eru í ávöxtun sjóðanna. Flokkunin byggir á áhættumælikvarða sem settur er fram í leiðbeiningum Evrópsku verðbréfaeftirlitsstofnunarinnar (e. ESMA) og Fjármálaeftirlitsins. Áhættumælikvarðinn byggir á flökti í vikulegri ávöxtun síðustu fimm ára af líftíma sjóðsins. Flökt í ávöxtun er reiknað sem staðalfrávik á ársgrundvelli og gefur vísbendingu um áhættustig sjóðsins. Flokkur 1 endurspeglar þannig minnst flökt í ávöxtun og þar með minnstu áhættuna en flokkur 7 þá mestu.
Vakin er sérstök athygli á því að mælikvarðinn byggir á sögulegri ávöxtun en flökt á ávöxtun í fortíð gefa ekki áreiðanlega vísbendingu eða tryggingu fyrir flökti á ávöxtun í framtíð. Ef breytingar verða á áhættu- og ávöxtunarsniði sjóðs er mælikvarðinn endurskoðaður og flokkunin getur breyst.
Áhættumælikvarðinn nær ekki yfir alla þá áhættuþætti sem fylgja fjárfestingum í sjóðum. Hann er einungis tölfræðileg lýsing á einum þessara þátta þ.e. flökti í ávöxtun sjóða. Hægt er að nálgast frekari umfjöllun um áhættu einstakra sjóða í útboðslýsingum þeirra.
Til að kaupa og selja í sjóðum Akta þarft þú að eiga vörslureikning hjá viðskiptabanka. Ef slíkur reikningur er ekki til staðar er best að hafa samband við þinn viðskiptabanka og óska eftir stofnun vörslureiknings. Margir bankar bjóða upp á slíka uppsetningu með einföldum rafrænum hætti í gegnum netbankann þinn.
Þegar vörslureikningur er til staðar þá skal beina beiðni um kaup og sölu í sjóðum Akta til þíns viðskiptabanka. Til að kaupa í sjóðum Akta getur þú haft samband beint við þinn viðskiptabanka, annað hvort í síma eða með tölvupósti og ganga frá kaupunum með þeim hætti.
Öllum fyrirspurnum um sjóði í stýringu Akta skal beint til félagsins á netfangið sjodir@akta.is.
Akta sjóðir
Sími: 585-6800
Netfang: sjodir@akta.is
Arion banki
Verðbréfaþjónusta
Sími: 444-7000
Netfang: verdbrefathjonusta@arionbanki.is
Íslandsbanki
Verðbréfaráðgjöf
Sími: 440-4000
Netfang: verdbref@islandsbanki.is
Kvika banki
Verðbréfaþjónusta
Sími: 540-3200
Netfang: sjodir@kvika.is
Landsbankinn
Landsbankinn hefur ekki milligöngu um viðskipti í sjóðum Akta. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar í síma 585-6800 eða með því að senda póst á netfangið sjodir@akta.is.
Vörslureikningur er bankareikningur í viðskiptabanka sem tengist verðbréfasafni. Það er nauðsynlegt að eiga vörslureikning til þess að geta átt viðskipti með verðbréf og aðra fjármálagerninga líkt og kaup í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Vörslureikningur heldur utan um hlutdeildarskírteinin sem þú færð afhent rafrænt þegar keypt er í sjóðum Akta. Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Kvika banki og Tplús bjóða upp á vörslureikninga.
Lágmarksupphæðin til að kaupa í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum Akta er 10.000 kr.
Sem sakir standa er ekki hægt að vera í beinni mánaðarlegri áskrift í sjóðum Akta, en unnið er að því koma upp áskriftarlausn.
Fjárfesting í sjóðum Akta er ekki bundin til neins ákveðins tíma fyrir utan þann dagafjölda sem það tekur að leysa eignarhlut þinn úr sjóðnum sem þú hefur fjárfest í. Í öllum verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum Akta er innlausnartíminn tveir virkir dagar (T+2).
Árleg umsýsluþóknun er innheimt af fjárfestingu þinni í sjóðum Akta og fer í að greiða rekstrarkostnað sjóða. Vert er að benda á að tekið er tillit til umsýsluþóknunar við daglegan útreikning á gengi og ávöxtun sjóðanna. Umsýsluþóknun er því dregin frá við útreikning á ávöxtun og gengi sjóða. Nánari upplýsingar um kostnað má finna í útboðslýsingum sjóða.
Stefna Akta er að bjóða sjóði með hóflegar fastar umsýsluþóknanir en aftur á móti reiknast hlutdeild í umframárangri sjóðanna ef hann næst. Allir sjóðir hafa þannig viðmið sem leggur til grundvöll fyrir þeirri lágmarksávöxtun sem þarf að ná og fara yfir til þess að umframárangur myndist. Til viðbótar, til að árangurstenging reiknist, þarf gengi sjóðsins að vera hærra en síðast þegar árangurstenging var tekin. Tekið er tillit til árangurstengdrar þóknunar við daglegan útreikning á gengi og ávöxtun sjóðanna. Sé umframárangur þannig til staðar í ávöxtun sjóðsins sem þú hefur keypt í þá er árangurstengd þóknun dregin frá við útreikning á ávöxtun og gengi sjóða á degi hverjum. Árangurstengingar sjóðanna eru greiddar út í lok hvers ársfjórðungs. Hægt er kynna sér viðmið hvers sjóðs og árangurstengdar þóknanir sjóðanna í útboðslýsingum þeirra.
Þegar aðili fjárfestir í sjóði, eru kaupin skráð á sölugengi sjóðsins en þegar aðili selur eignarhlut sinn, fer hann úr sjóðnum á kaupgengi sjóðsins. Við kaup í sjóðum er innheimt söluþóknun í formi mismunar á kaup- og sölugengi (einnig kallað gengismunur eða upphafsþóknun).
Gjald sem er innheimt af viðskiptum í sjóðum Akta í samræmi við gjaldskrá þíns viðskiptabanka.
Allar ávöxtunartölur á heimasíðu Akta eru reiknaðar og birtar eftir ofangreindar þóknanir sjóðanna fyrir utan gengismun (gengismunur er felldur niður þegar keypt er í sjóðunum í gegnum Akta) og afgreiðslugjalds vörsluaðila (viðskiptabankinn þar sem sjóðsfélagi ákveður að varsla hlutadeildarskírteinin).
Fjárfestingarsjóðir eru sjóðir um sameiginlega fjárfestingu, sem reknir eru af félagi með starfsleyfi sem rekstraraðili sérhæfðra sjóða, sem heimild hafa til að markaðssetja hlutdeildarskírteini sín til almennings. Fjárfestingarsjóðir starfa samkvæmt lögum nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Lögin hafa það að markmiði að tryggja m.a. skilvirka neytendavernd en með lögunum er rekstri sjóðanna settar ýmsar skorður.
Í tilviki sjóða í rekstri Akta er umsjón og varsla verðbréfa í höndum Kviku banka. Vörslufélagið er eftirlitsaðili og sér meðal annars um að gengisútreikningar, sala, útgáfa og innlausn hlutdeildarskírteina fari fram samkvæmt lögum og samþykktum sjóða.
Fjárfestingarstefna fjárfestingarsjóða er ákveðin fyrir fram og geta fjárfestar þannig nálgast og kynnt sér heimildir sjóða áður en til fjárfestingar kemur. Ekki er unnt að gera breytingar á fjárfestingarstefnu fjárfestingarsjóðs án samþykkis Fjármálaeftirlitsins sem hefur eftirlit með starfsemi viðkomandi rekstraraðila og þar með sjóðsins.
Akta stýrir fjárfestingarsjóðunum Akta Alviðra, Akta Atlas, Akta Stokkur, Akta VaxtaTækifæri og Akta VaxtaVeröld.
Lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
Verðbréfasjóðir eru sjóðir um sameiginlega fjárfestingu sem reknir eru af félagi með starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða, sem heimild hafa til að markaðssetja hlutdeildarskírteini sín til almennings. Íslenskir verðbréfasjóðir starfa samkvæmt lögum nr. 116/2021 um verðbréfasjóði. Lögin hafa það að markmiði að tryggja m.a. skilvirka neytendavernd, en með lögunum er rekstri sjóðanna settar ýmsar skorður.
Í tilviki sjóða í rekstri Akta er umsjón og varsla verðbréfa í höndum Kviku banka. Vörslufélagið er eftirlitsaðili og sér meðal annars um að gengisútreikningar, sala, útgáfa og innlausn hlutdeildarskírteina fari fram samkvæmt lögum og samþykktum sjóða.
Fjárfestingarstefna verðbréfasjóða er ákveðin fyrir fram og geta fjárfestar þannig nálgast og kynnt sér heimildir sjóða áður en til fjárfestingar kemur. Ekki er unnt að gera breytingar á fjárfestingarstefnu verðbréfasjóðs án samþykkis Fjármálaeftirlitsins sem hefur eftirlit með starfsemi viðkomandi rekstrarfélags og þar með sjóðsins.
Akta stýrir verðbréfasjóðnum Akta Ríki.
Lög um verðbréfasjóði.
Sérhæfður sjóður er sjóður um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu er markaðssettur fagfjárfestum. Þeir lúta lágmarkseftirliti. Fjárfesting í slíkum sjóði er áhættusamari en í öðrum sjóðum. Lög nr. 45/2020 um rekstraraðila sérhæfðra sjóða gilda um þá sjóði.
Lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
Skuldabréfasjóðir fjárfesta að meginstefnu til í skuldabréfum. Skuldabréf eru skuldaviðurkenning þar sem útgefandi bréfsins skuldbindur sig til að greiða eiganda þess tiltekna fjárhæð á tilteknum tíma á þeim kjörum sem tilgreind eru í bréfinu. Skilmálar skuldabréfa eru ákveðnir við útgáfu þess. Vextir bréfsins geta verið annað hvort fastir eða breytilegir. Þá geta skuldabréf verið verðtryggð eða óverðtryggð. Höfuðstóll skuldarinnar getur verið greiddur í einni greiðslu á lokagjalddaga eða á fyrir fram ákveðnum gjalddögum. Útgefendur skuldabréfa á markaði eru oftast opinberir aðilar, bankar eða fyrirtæki. Eigandi skuldabréfs er kröfuhafi þess og á kröfu á hendur útgefanda þess um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar í samræmi við skilmála bréfsins.
Hlutabréfasjóðir fjárfesta að meginstefnu til í hlutabréfum. Hlutabréf eru gefin út til hluthafa sem staðfesting fyrir þeim hlut sem hann á í hlutafélagi. Hluthafi nýtur þeirra réttinda sem lög og samþykktir hlutafélagsins kveða á um. Ávöxtun hluthafa getur verið í formi arðgreiðsla en einnig getur verð hlutabréfsins hækkað.
Blandaðir sjóðir fjárfesta bæði í hlutabréfum og skuldabréfum.
Áhætta fylgir bæði fjárfestingu í hlutabréfum og skuldabréfum.
Akta er undir margþættu eftirliti bæði innri og ytri eftirlitsaðila. Félagið er hlutafélag í samræmi við lagakröfur og birtir ársreikninga á heimasíðu sinni. Aðskilnaður ríkir á milli Akta og þeirra sjóða sem það rekur. Ársreikningi félagsins og sjóða í rekstri félagsins er haldið aðskildum og allir sjóðir eru með eigin efnahags- og rekstrarreikning. Eign hlutdeildarskírteinishafa er ávísun á hlutfallslega eign í sjóði. Varsla eigna sjóðanna er í höndum sjálfstæðs vörslufyrirtækis (Kviku banka) sem hlotið hefur viðurkenningu Fjármálaeftirlitsins. Akta á ekki tilkall til eigna sjóða nema félagið eigi hlutdeildarskírteini í sjóðnum og þá reiknast það sem hlutfallslega eign í sjóðnum með sama hætti og er reiknað út fyrir aðra hlutdeildarskírteinishafa. Jafnframt ber Akta ekki rekstrarlega áhættu af sjóðunum.
Spurt og svarað er samantekt af algengum spurningum sem berast reglulega til Akta. Upplýsingarnar eru einungis birtar í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á þær sem ráðgjöf af neinu tagi. Akta ber ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma á vefsíðu félagsins. Birt með fyrirvara um villur og breytingar.